Ferill 382. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1291  —  382. mál.
3. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (alþjóðleg vernd).

Frá 1. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Fyrsti minni hluti fordæmir vinnubrögð meiri hlutans í málinu og leggur til að frumvarpinu verði hafnað.
    Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu er yfirlýstur tilgangur þess aðlögun löggjafarinnar að þeirri þróun sem á sér stað í alþjóðasamfélaginu og þeim áskorunum sem verndarkerfið stendur frammi fyrir. Í opinberri umræðu um málið hafa ráðherrar og þingmenn stjórnarmeirihlutans lýst því yfir að markmið frumvarpsins sé að auka skilvirkni málsmeðferðar og samræma íslenskt regluverk því sem gengur og gerist í nágrannaríkjunum.
    Líkt og komið hefur fram í máli sérfræðinga, sem veitt hafa umsögn um málið, fellur frumvarpið illa að þessum markmiðum og gengur að mörgu leyti gegn þeim. Virðist tilgangur frumvarpsins að mati 1. minni hluta fyrst og fremst vera sá að lögfesta framkvæmd stjórnvalda sem úrskurðuð eða dæmd hefur verið ólögmæt, skerða möguleika flóttafólks til þess að leita réttar síns og koma í veg fyrir misnotkun kerfisins sem ekkert bendir hins vegar til að sé teljandi vandamál hér á landi. Er að mati 1. minni hluta ljóst að þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu bæti í engu úr þeim vanköntum í kerfinu sem bent hefur verið á né leysi þær úr þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir vegna fjölgunar flóttafólks.
    Í ofanálag bendir allt til þess að mörg ákvæði frumvarpsins muni brjóta gegn borgaralegum réttindum fólks og skapa alvarleg fordæmi um undantekningar frá grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins sem ekki er ljóst hvernig túlka skuli í framkvæmd. Kom m.a. fram á fundum nefndarinnar að meginreglur stjórnsýsluréttarins, svo sem um rétt til endurupptöku máls vegna breyttra forsendna eða nýrra gagna, gangi framar ákvæðum sem skerða þann rétt borgaranna. Í ljósi umsagna telur 1. minni hluti ljóst að frumvarpið muni skerða rétt flóttafólks til endurupptöku máls síns á grundvelli meginreglna stjórnsýsluréttarins. Í tilviki útlendinga sem eiga það á hættu að vera vísað úr landi í kjölfar neikvæðrar niðurstöðu stjórnvalda er þessi staða sérstaklega alvarleg þar sem möguleikar þeirra á að fá ákvörðun leiðrétta eða að leita réttar síns með öðrum hætti eru verulega skertir með flutningi þeirra úr landi. Hefur 1. minni hluti áhyggjur af því að breytingarnar leiði til verulega skertrar réttarverndar fólks sem þegar er í afar viðkvæmri stöðu.
    Þá hefur komið skýrt fram í máli sérfræðinga við meðferð málsins í allsherjar- og menntamálanefnd að tilteknar breytingar brjóti gegn réttindum barna á flótta, en tilgangur þeirra ákvæða frumvarpsins virðist vera sá að koma í veg fyrir misnotkun sem engin gögn eða upplýsingar liggja fyrir um að sé teljandi vandamál hér á landi. Er réttindum barna á flótta þannig kastað fyrir róða á grundvelli óljósra og óstaðfestra áhyggna af misnotkun fárra.
    Fyrsti minni hluti fordæmir vinnubrögð meiri hlutans í allri þinglegri meðferð málsins, þó ekki síst í allsherjar- og menntamálanefnd. Gestir hafa komið og upplýst nefndina um alvarlega annmarka á frumvarpinu og sumir lagt til mögulegar lagfæringar á því sem ekki hreyfa við meintum markmiðum frumvarpsins. Þrátt fyrir það voru engar teljandi breytingar gerðar á málinu, auk þess sem lítil sem engin umræða átti sér stað í nefndinni um málið. Var það að endingu afgreitt úr nefndinni af hálfu meiri hlutans gegn háværum mótmælum minni hluta hennar, og það þrátt fyrir að enn væri beðið upplýsinga og gagna vegna málsins.
    Þau vinnubrögð meiri hlutans að afgreiða málið úr nefndinni áður en upplýsingar, sem nefndin öll samþykkti að óska eftir vegna málsins, lágu fyrir, ýta undir áhyggjur 1. minni hluta af því að gestakomur og öflun umsagna um málið hafi af hálfu meiri hlutans einungis verið til málamynda. Þá liggja nú loksins fyrir breytingartillögur sem tilkynntar voru af hálfu þingmanna meiri hlutans strax við upphaf 2. umræðu í þingsal, en þær bárust á síðustu stundu, ásamt drögum að nefndaráliti meiri hlutans í málinu. Gafst nefndarmönnum því ekki færi á að kynna sér breytingartillögurnar til hlítar áður en málið var afgreitt úr nefndinni. Þessi málalok í nefndinni koma svo til viðbótar við þau ófaglegu vinnubrögð meiri hlutans að neita staðfastlega beiðni um óháð mat á samræmi frumvarpsins við stjórnarskrá, sem ítrekað kom fram.
    Breytingartillögur þær sem lagðar voru fram á síðustu stundu í allsherjar- og menntamálanefnd létta ekki þeim áhyggjum sem lýst hefur verið af afleiðingum frumvarpsins, enda eru breytingarnar veigalitlar og svara ekki að neinu leyti þeim alvarlegu athugasemdum við málið sem gerðar hafa verið við meðferð þess í þinginu.
    Að framangreindu virtu leggur 1. minni hluti til að frumvarpinu verði hafnað.
    Sigmar Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur álitinu.

Alþingi, 13. mars 2023.

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir,
frsm.
Helga Vala Helgadóttir.